Til baka
Saga fyrirtækisins

Austfjarðaleið er eitt elsta rútufyrirtæki landsins en það var stofnað árið 1962 af Sigfúsi Kristinssyni, eða Fúsa á Austfjarðarútunni, sem var þekktur fyrir landslagslýsingar sínar og hnyttnar frásagnir af mönnum og málefnum
Synir Fúsa, Haukur og Sigfús Valur tóku við rekstrinum af föður sínum, en árið 1985 keypti Hlífar Þorsteinsson fyrirtækið og hefur rekið það síðan.

Höfuðstöðvar Austfjarðaleiðar eru í Fjarðabyggð og liggur leiðin því oft um Oddsskarð sem er einn hæsti og erfiðasti fjallvegur landsins, í 632 metra hæð yfir sjávarmáli.

Við hjá Austfjarðaleið leggjum mikla áherslu á öryggi farþeganna, gott viðhald og hreina og þægilega bíla.


Breyttar aðstæður

Sigfús hóf akstur sem atvinnubílstjóri árið 1934 og varð rútubílstjóri á Austfjarðarútunni á milli Akureyrar og Viðfjarðar árið 1940. Fyrstu árin sem Fúsi keyrði norður tók aksturinn um tvo daga, en í þá daga voru vegir meira og minna niðurgrafnir og vélar afllitlar. Farið var frá Viðfirði til Reyðarfjarðar klukkan 9 að morgni eftir komu bátsins frá Neskaupstað. næsta morgun var lagt af stað frá Reyðarfirði kl. 6 og komið til Akureyrar kl. 11 að kvöldi. Með tilkomu aflmeiri véla og nýrra og bættra vega hefur leiðin styst og munar þar mest um brúna sem reist var yfir Jökulsá á fjöllum árið 1947 og  veginn um Oddsskarð, sem lagður var 1949.

Austfjarðaleið hélt uppi áætlunarferðum norður til Akureyrar til ársins 1968 og suður til Hornafjarðar eftir að fjarðaleiðin opnaðist, til ársins 1973. Hópferðir um allt land og áætlunarferðir innan austurlandsfjórðungs hafa alla tíð verið ríkur þáttur í starfsemi fyrirtækisins svo og allskonar tilraunir til uppbyggingar ferðaþjónustu. Má þar nefna fastar ferðir, ætlaðar ferðafólki, til: Mjóafjarðar og Dalatanga, Borgarfjarðar eystri, Hallormsstaðar og Snæfells, að ógleymdum siglingum um Norðfjarðarflóa.
Þessar tilraunir voru gerðar án styrkja og stóðu því miður ekki undir sér og hefur þeim nú verið hætt, að minnsta kosti um sinn.


Staðsetning bíla

Í dag eru staðsettir bílar í Fjarðabyggð, á Breiðdalsvík, Egilsstöðum og yfir sumartímann í Reykjavík.Óseyri 1 / 730 Reyðarfjörður / sími 477-1713 / fax 477-1710 / aust@austfjardaleid.is